Innlent

Amnesty þrýstir á stjórnvöld

Jóhanna K. Eyjólfsdóttir er framkvæmdastjóri Amnesty International á Íslandi.
Jóhanna K. Eyjólfsdóttir er framkvæmdastjóri Amnesty International á Íslandi. MYND/Pjetur Sigurðsson

Amnesty International á Íslandi hefur sent bréf til íslenskra yfirvalda þar sem þess er farið á leit að við kosningu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna á þriðjudag í næstu viku, verði hagsmunir mannréttinda eingöngu hafðir að leiðarljósi, en ekki pólitísk hrossakaup.

Miklar væntingar eru til nýja ráðsins frá mannréttindasamtökum, enda er þess vænst að það veiti meira og virkara aðhald gegn mannréttindabrotum heldur en gamla mannréttindanefndin gerði. 47 kosnir fulltrúar mismunandi aðildarlanda Sameinuðu þjóðanna munu sitja í ráðinu, sem mun koma oftar saman en mannréttindanefndin gamla. Er vonast til að nýja ráðið verði sjálfstæðara frá pólitík aðildarlandanna og geti haldið refsivendi yfir ríkisstjórnum landa þar sem mannréttindi eru ekki virt sem skyldi.

Bréfið sem Íslandsdeild A.I. sendi yfirvöldum er hluti af herferð Amnesty International á heimsvísu fyrir því að mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna verði ekki valið eftir pólitískri kaupmennsku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×