Innlent

Íbúðarsamtökin Betri byggð á Álftanesi ósátt

Íbúðarsamtökin Betri byggð á Álftanesi segja vinnubrögð meiri hlutans í bæjarstjórn skammarleg um ný samþykkt deiliskipulag miðsvæðis bæjarinns. Í tilkynningu frá samtökunum segir að um helmingur kosningabærra íbúa Álftaness eða tæplega 700 manns skrifuðu á undirskriftalista í desember s.l. gegn miðbæjarskipulagi Álftaness sem þá var í auglýsingu.

Krafan var að fá fram nýtt skipulag og að íbúar fengju að velja á milli ólíkra tillagna. Í kjölfarið lýsti bæjarstjóri því yfir að framkvæmdum á svæðinu yrði frestað fram yfir kosningar svo að íbúarnir gætu kosið um miðbæjarskipulag. Þrátt fyrir yfirlýsinguna lét meiri hlutinn vinna deiliskipulagið áfram og samþykkti það í bæjarstjórn en felldi tillögu minni hlutans að frestað yrði að senda Skipulagsstofnun hið umdeilda deiliskipulag til yfirferðar þar til fram yfir kosningar.

Breytingarnar sem gerðar voru taka aðeins til mjög takmarkaðs hluta miðsvæðisins, þ.e. með nýjum aðkomuvegi frá Breiðumýri að skólasvæði. Skilaboð þeirra 700 íbúa sem skrifuðu undir undirskrifalistana voru einfaldlega þau að skipulagstillögunni var hafnað í heild sinni. Öllum að óvörum var kynningarefni, bæklingur á þykkum glanspappír og margmiðlunardiskur, nýlega borið í hús á Álftanesi á kosnað bæjarsjóðs og þeirra hundruða íbúa sem mótmæltu miðbæjarskipulaginu.

Spurningin er hvaða tilgangi kynningarefnið þjónar nú og fyrir hvern það er hugsað? Hefði ekki verið eðlilegra að kynna íbúunum miðbæinn áður en deiliskipulagið var samþykkt? Eða er tilgangur kynningarefnisins að afla meiri hlutanum vinsælda á meðal kjósenda nú rétt fyrir kosningar? Íbúasamtökin betri byggð á Álftanesi lýsa undrun sinni og vonbrigðum með framgöngu meiri hlutans í bæjarstjórninni í vinnuferlinu öllu og því virðingarleysi sem megin þorra íbúa sveitarfélagsins Álftaness er sýnt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×