Innlent

Megum ekki ganga á náttúruhöfuðstólinn

Dr Eagan á fyrirlestri hjá Samtökum atvinnulífsins
Dr Eagan á fyrirlestri hjá Samtökum atvinnulífsins MYND/Af vef Samtaka atvinnulífsins

Íslendingar verða að gæta sín að ganga ekki um of á ósnortna náttúru landsins því hún á eftir að verða þeim ríkuleg auðlind þegar fram í sækir. Þetta segir dr Patrick Eagan, prófessor í umhverfisfræðum við háskólann í Wisconsin, sem hér er staddur í boði bandaríska sendiráðsins.

Doktor Eagan leggur áherslu á að Íslendingar megi ekki ganga á náttúruhöfuðstól sinn, heldur skuli frekar reynt að lifa af vöxtunum, ef svo megi að orði komast, meðal annars með því að sýna landið ferðamönnum og nýta umhverfisvænar orkulindir án umhverfisspjalla.

Eagan hefur starfað sem ráðgjafi margra stórfyrirtækja í umhverfismálum. Hann sagði mikilvægt að fyrirtæki legðu metnað í að bæta umhverfisímynd sína og að með því jykist verulega verðmæti fyrirtækisins á markaði. Hann nefnir General Electrics sem hafi stóraukið markaðsverðmæti sitt með því að leggja meiri pening til umhverfisrannsókna og bæta umhverfisvænum vörum í framleiðslulínu sína.

Dr Eagan heldur fyrirlestra á morgun í Viðskiptaháskólanum í Bifröst og á föstudaginn á Akureyri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×