Innlent

Ríkisreknir háskólar úrelt rekstrarform

MYND/Gunnar V. Andrésson

Runólfur Ágústsson, rektor á Bifröst, segir háskóla í Evrópu líða fyrir of mikil afskipti ríkis af rekstrinum. Þetta birtist í flótta vísindamanna og kennara vestur um haf til einkarekinna háskóla í Bandaríkjunum. Hann segir ríkisrekna háskóla úrelt rekstrarform sem ekki henti fyrir háskóla nútímans, sem séu fyrst og fremst alþjóðleg þekkingarfyrirtæki.

Runólfur fagnar niðurstöðu stúdenta í Háskóla Íslands og Háskóla Akureyrar um að ríkisreknu háskólarnir þurfi meira akademískt og stofnanalegt frelsi. Hann heldur hins vegar fast við fyrri orð sín um að ríkisreknu háskólunum væri hollt að taka upp skólagjöld og ekki væri síðra að einkavæða háskólana. Hann bendir á háskóla Danmerkur sem flestir hafi verið gerðir að sjálfseignarstofnunum. Það form henti prýðilega en eins væri gott að gera úr þeim hlutafélög sem stjórnaðist af hagsmunum nemenda, kennara og annarra hagsmunaaðila.

Hann tekur hins vegar undir með stúdentum að burtséð frá skólagjöldum og einkavæðingu þyrfti einnig að veita meira fé til háskólastigsins því við stöndum nágrannaþjóðum okkar þar langt að baki. Fjárframlög til háskólastigsins sé hér einungis 1,1% af vergri landsframleiðslu en á Norðurlöndunum sé þetta hlutfall á bilinu 1,6-1,9%. Hann segir að Íslendingar verði að miða við það besta sem gerist meðal háskóla og ekki að setja markið lægra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×