Innlent

Hvalveiðisinnar í meirihluta Alþjóðahvalveiðiráðsins

Hvalveiðisinnar eru komnir í meirihluta Alþjóðahvalveiðiráðsins að mati breska blaðsins Independent. Þessi breytta staða er árangur margra ára starfs Japana en Íslendingar og Norðmenn hafa einnig komið þar við sögu.

Ársfundur Alþjóðahvalveiðiráðsins fer fram í júní í eyríkinu St. Kitts og Nevis og er útlit fyrir að ríki sem hlynnt eru hvalveiðum verði þar í meirihluta í fyrsta sinn í rúma tvo áratugi. Greinarhöfundar eru ekkert að skafa utan af hlutunum þegar þeir lýsa þeirri nýju stöðu sem upp er komin innan ráðsins heldur tala þeir um að valdarán hafi hreinlega átt sér þar stað. Japanar, með fulltingi Íslendinga og Norðmanna, hafi með lúmskum hætti undanfarin ár lokkað inn í ráðið ný ríki sem flest eru frá Afríku og Karabíska hafinu. Þau taki við margra milljarða króna efnahagsaðstoð fegins hendi gegn því að styðja hvalveiðar.

Árið 2000 voru aðildarríki Alþjóðahvalveiðiráðsins fjörutíu en nú eru þau orðin 66. Þessi fjölgun á að duga hvalveiðisinnum til að hafa einfaldan meirihluta í ráðinu. Þótt 75 prósent atkvæða þurfi til að ógilda ákvörðun ráðsins um bann við hvalveiðum í atvinnuskyni á að vera hægt að ná fram breytingum á ýmsum ákvörðunum þess, til dæmis að samþykkja viðskipti með hvalkjöt og koma á leynilegum atkvæðagreiðslum á fundum ráðsins, sem blaðið telur sérlega mikilvægt. Niðurstaða greinarhöfunda er því sú að sá árangur sem umhverfisverndarsamtök náðu á níunda áratugnum þegar hvalveiðar voru bannaðar sé nú í verulegri hættu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×