Innlent

Gert meira rétt en rangt

Fjármálaráðherra segir hagstjórn ríkisstjórnarinnar ekki án galla en telur árangur hennar engu að síður ásættanlegan. Hann segir breytingu hámarksútlána Íbúðalánasjóðs engin áhrif hafa á verðbólguna.

Verðbólga mælist nú 5,5% á ársgrundvellli. Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt ríkisstjórnina harðlega fyrir stefnu sína í efnahagsmálum. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, segir ekkert þannig að allt sé fullkomið. Svo geti verið að ríkisstjórnin hafi á einhverju stigi gert einhver mistök en miðað við hvernig staðan sé nú og hver styrkur hagkerfisins er þá hafi hún gert meira rétt en rangt.

Í fréttum okkar í gær kom fram að stjórnarandstaðan telur að ríkisstjórnin hafi komið verðbólgunni á stað með stóriðjuframkvæmdum, ranglátum skattalækkunum og mistökum í húsnæðislánum. Árni segir erfitt að rekja verðbólguna til ranglátra skattalækkanna og hann veltir því fyrir sér hvort að menn vilji raunverulega hverfa aftur til þess tíma þegar aðeins var lánað fyrir 50-60% af húsnæðisverði.

Íbúðalánasjóður ætlar að hækka hámarkslán sín úr 15,9 milljónum í 18 milljónir þann 18. apríl næstkomandi. Forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands hefur sagt það óskiljanlegt og ganga þvert á það sem stjórnvöld boði. Árni segir breytinguna hafa afskaplega takmörkuð ef nokkur áhrif á stöðuna í dag. Húsnæðisverð hafi hækkað mikið án þess að hámarkslán Íbúðalánasjóðs hafi hækkað.

Árni segir ríkisstjórnina vera að skoða ýmsar aðgerðir sem hún geti gripið til í stöðunni. Hann segir aðgerðirnar vera hugsaðar sem heild og því komi til dæmis ekki til lækka það hlutfall sem ríkissjóður tekur af bensínlítranum til að lækka bensínverð. Ýmislegt sé hægt að gera en ef litið er á verðbólguna sem tímabundin áhrif vegna gegnislækkunar og að gengið nái jafnvægi á ný þá verði að fara varlega í allar aðgerðir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×