Innlent

4.431 undirskrift til stuðnings séra Sigfúsi

Undirskriftir 4.431 íbúa í Reykjanesbæ voru afhentar dómsmálaráðherra fyrir luktum dyrum í dómsmálaráðuneytinu í dag. Fólkið krefst þess að ráðherra skipi séra Sigfús B. Ingvarsson í stöðu sóknarprests í Keflavíkursókn.

Séra Sigfús B. Ingvason hefur verið annar presta í Keflavíkursókn í þrettán ár, ásamt séra Ólafi Oddi Jónssyni, sem lést fyrir áramót. Stuðningsmenn hans segja hann hafa þjónað af trúrækni og tryggð og sé mjög vinsæll meðal sóknarbarna, eins og berlega sjáist af fjölda sóknarbarna sem hafa skrifað sig á listann honum til stuðnings. Þegar búið var að fara yfir tvítekningar og platnöfn voru 4431 nafn á listanum, en um 5600 atkvæðisbær sóknarbörn í Keflavíkursókn, þ.e. tæp 80% atkvæða ef kemur til prestskosninga.

Valnefnd, sem skipuð er af sóknarnefnd, ásamt vígslubiskupi, mæltu með öðrum presti í brauðið, séra Skúla S. Ólafssyni, sem hefur þjónað sem sóknarprestur á Ísafirði í forföllum skipaðs sóknarprests. Endanlegt ákvörðunarvald er hins vegar í höndum dómsmálaráðherra. Niðurstöðu í málinu er vænst fyrir lok mánaðarins, svo að nýr sóknarprestur geti tekið við þann 1. maí. Séra Sigfús þjónar áfram yfir páskana og vonuðust stuðningsmenn hans til þess að þurfa ekki að sjá á bak honum í mánaðarlok.

Fjölmiðlum var meinaður aðgangur að sjálfri afhendingu undirskriftanna og fékk fréttamaður að dúsa niðri í andyri samkvæmt fyrirmælum Björns Bjarnasonar, ráðherra. Hann neitaði einnig að tjá sig um málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×