Erlent

ESB stöðvar fjárframlög

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur ákveðið að stöðva fjárframlög til heimastjórnar Palestínumanna þangað til Hamas-samtökin viðurkenna Ísraelsríki og leggja niður vopn.

Frá því að Hamas-samtökin tóku við völdum í palestínsku heimastjórninni hefur tónninn í liðsmönnum þeirra í garð Ísraelsríkis mildast nokkuð. Þrátt fyrir þrýsting hafa þeir þó ekki fengist til að lýsa því afdráttarlaust yfir að friðarsamningar sem þegar hafa verið gerðri við Ísraela verði virtir. Í morgun var þolinmæði framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins loks á þrotum þegar talsmaður hennar tilkynnti að í bili yrði tekið fyrir fjárframlög til samtakanna.

Palestínumenn reiða sig mjög á erlend fjárframlög og lætur enginn þeim meiri fjármuni í té en ESB eða um 45 milljarða króna á ári. Enda þótt einungis hluti þessara greiðslna verði frystur, eða það fé sem rennur beint til heimastjórnarinnar og starfsmanna hennar, er ljóst að ákvörðun ESB setur efnahag sjálfstjórnarsvæðanna í verulegt uppnám. Fulltrúar Hamas eru því að vonum uggandi yfir þessu útspili.

Í næstu viku munu svo utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkjanna ræða um hvernig aðstoð við Palestínumenn verði háttað í framtíðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×