Innlent

Aftakaveður og nokkur snjóflóð fallið

MYND/Birgir Þór Halldórsson

Um tuttugu manns gista nú hjá vinum og ættingjum á Bolungarvík vegna snjóflóðahættu og verða þar fram á morgun. Veðrinu hefur lítið slotað en fyrr í dag lýsti Veðurstofan yfir viðbúnaðarstigi vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum. Sex hús hafa verið rýmd á Bolungarvík vegna þessa. Húsin standa við Dísarland og Traðarland, efst í hlíðum Traðarhyrnu. Göturnar sem um ræðir eru efst í bænum og hefur oft þurft að rýma þar hús áður vegna snjóflóðahættu. Ekki er lengur búið í öllum húsunum þar sem Ofanflóðasjóður hefur keypt upp hús í götunum til þess að þetta svæði tæmist varanlega.

Í dag féllu þrjú snjóflóð á Súðarvíkurveg og slasaðist einn maður við bjrögunarstörf þegar flóð féll á hann og klemmdi hann milli tveggja bíla. Maðurinn var að hjálpa fólki úr bílum sem sátu fastir á veginum milli tveggja flóða þegar það þriðja féll og var hann fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði en bíður þess nú að verða fluttur til Reykjavíkur en veður hefur aftrað því að hægt sé að flytja manninn. Hann ku vera beinbrotinn og með fleiri áverka og er líðan hans eftir atvikum góð.

Slæmt veður hefur verið á noðranverðum Vestfjörðum í allan dag og voru til að mynda bjrögunarbátar í viðbragðsstöðu fram eftir degi vegna þess. Búist er við aftakaveðri áfram á morgun og því vill lögreglan á Ísafirði koma þeim skilaboðum á framfæri að fólk sé ekki á ferðinni á þessum slóðum að ástsæðulausu en hún haft í nógu að snúast í dag við að aðstoða fólk sem situr fast í bílum sínum.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×