Innlent

Búgarðabyggð í Árborg og Ölfusi

Tveir landeigendur í sveitarfélaginu Árborg og Ölfusi bjóða fólki að byggja búgarða, með aðstöðu fyrir útihús og skepnur. Þetta hentar vel fólki sem vill búa í sveit, en þó nálægt þéttbýli. Alls er boðið upp á um eitt hundrað lóðir á um þúsund hekturum.Sala á lóðum í búgarðabyggðinni Tjarnarbyggð hófst 22. mars síðastliðin en lóðirnar eru hugsaðar fyrir fólk sem vill búa í sveit en njóta þjónustu á við þéttbýlinga, en byggðin er í Kaldaðarnesi, mitt á milli Eyrar­bakka og Selfoss.

Hönnun á búgarðabyggðinni á sér engan líka en svæðinu verður skipt í klasa. Byggðin mun rísa á 600 hektara landi, en þar geta íbúar byggt sér heilsárshús og jafnframt verið með aðstöðu fyrir hesta eða aðrar skepnur. Einnig eru góðir möguleikar til ræktunar en ekki er gert ráð fyrir sumarhúsum í þessari byggð. Þegar er búið að selja 70 lóðir og er greinilegt að fólk vill komast í sveitasæluna. Verð fyrir 10.000 fermetra lóð í Tjarnarbyggð er frá 4,5 milljónum. Í Ölfusinu, nánar tiltekið í Gljúfrárholti er þegar risin lítil búgarðabyggð sem er þó nær þéttbýli, en hún er staðsett rétt við Hveragerði. Þar er þegar búið að byggja sjö hús, en alls eru þar um 55 lóðir, sem gert er ráð fyrir að byggt verði íbúðarhús og hesthús. Verð á lóðum í Gljúfrárholti er um sjö milljónir og er stærðin á þeim er um 7000 fermetrar. Mikil eftirspurn hefur verið eftir jörðum úti á landi og svo virðist sem menn vilji koma upp aðstöðu fyrir hesta eða annarri tómstundaaðstöðu næst heimili sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×