Innlent

Mikill áhugi fyrir listdansi hér á landi

Það vantar ekki listdansáhugann hjá nemendum Stúdentadansflokksins sem samhliða dansnáminu stunda allir krefjandi háskólanám. Stúdentadansflokkurinn var stofnaður formlega 1. febrúar síðastliðinn en það er Margrét Anna Einarsdóttir sem á veg og vanda að stofnun hans. Margrét, sem er á 2. ári í lögfræði á Háskólanum í Reykjavík, fór á fund rektora Háskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands sem tóku vel í hugmynd hennar og féllust á að styrkja dansflokkinn. Inntökupróf voru síðan haldin í janúar síðastliðnum og alls mættu fimmtíu manns. Tíu einstaklingar voru síðan valdir úr þeim hópi sem auk Margrétar æfa listdans þrisvar sinnum í viku í húsakynnum Lisdanskóla Íslands undir stjórn Helenu Jónsdóttir, sem er listrænn stjórnandi dansflokksins. Margrét segir mikinn áhuga vera fyrir listdansinum og það sýni sig t.d í því hversu margir mættu í inntökupróf. Danflokkurinn er að æfa fyrir sýningu um þessar mundir sem er fyrirhuguð í nóvember. Hún segir að markmið flokksins sé að bjóða upp á opnar dansæfingar fyrir háskólanema þegar fram líða stundir.

Allir nemarnir í Stúdentadansflokknum hafa víðtæka reynslu í dansi en koma úr ólíkum áttum. Meðal þeirra fræða sem nemarnir leggja stund á innan veggja háskólanna eru lögfræði, læknisfræði, lyfjafræði og hagfræði. Óhætt er að segja að nemendur dansflokksins hafi óbilandi áhuga á dansnámi sínu jafnt sem háskólanámi því sjaldan er slegið slöku við, ekki einu sinni þegar prófin standa yfir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×