Innlent

Fagna flutningi starfa út á land

Þingmenn úr öllum flokkum fögnuðu því á Alþingi í dag að starfsemi Fæðingarorlofssjóðs skuli flutt í Húnavatnssýslur. Þeir sögðu að með því væri stutt við atvinnulíf á landsbyggðinni.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði félagsmálaráðherra út í uppsögn samninga við Tryggingastofnun um rekstur Fæðingarorlofssjóðs. Hún sagðist hafa skilning á þeim vilja manna að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni en sagði betra að gera það með nýjum störfum heldur en með því að flytja störf milli landshluta. Hún sagði að þegar síðari leiðin væri farin væri hætta á að sérfræðiþekking týndist úr viðkomandi málaflokkum.

Félagsmálaráðherra sagði flutning starfseminnar í Húnavatnssýslur í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um flutning starfa út á land. Hann sagði að ef eitthvað væri myndi þjónusta við almennings aukast þar sem vinnumiðlanir víða um land komi til með að bjóða upp á þjónustuna í framtíðinni.

Þingmenn úr öllum flokkum lýstu stuðningi við ákvörðunina, stjórn jafnt sem stjórnarandstöðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×