Innlent

Mátti ekki svara fyrir sig

MYND/Heiða
Forsetinn átti ekki að svara fyrir sig þegar Morgunblaðið gagnrýndi Mónakóferð forsetans á síðasta segir Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og ritstjóri Fréttablaðsins. Hann segir að með því hafi forsetinn farið gegn stjórnskipulegri stöðu sinni.

Staksteinahöfundur Morgunblaðsins gagnrýndi Ólaf Ragnar Grímsson forseta nokkuð harðlega í nóvember síðast liðnum. Þar var lýst efasemdum um veru forsetans við innsetningu Alberts fursta af Mónakó og sagt að sumar ferðir forseta gætu jafnvel verið hvort tveggja Íslandi og gestgjafa til vansa ef tilgangur þeirra væri ekki skýr. Blaðið óskaði eftir því að forseti svaraði fyrir tilgang ferðarinnar og það gerði hann í aðsendri grein næsta dag og gagnrýndi jafnframt Morgunblaðið fyrir orðalag í athugasemdinni við ferðina.

Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins og fyrrum forsætisráðherra, finnur að þessu í grein sem hann skrifar í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmála sem er nýkomið út. Þar segir Þorsteinn að samkvæmt stjórnskipunarákvæðum eigi forsetinn ekki að svara fyrir embættisathafnir sínar heldur sé það í verkahring ráðherra. Í þessu tilfelli hefði utanríkisráðherra átt að svara til um tilgang ferðarinnar og Morgunblaðið að beina spurningum sínum til hans en ekki forseta. Þorsteinn segir Morgunblaðið hafa sett fram stjórnmálalegt mat í athugasemdum sínum við ferð forseta og forseta lýst stjórnmálalegu mati í röksemdum sínum fyrir ferðinni. Forsetann á að standa fyrir utan stjórnmáladeilur en dróst í þessu tilfelli inn í stjórnmálaþrætu segir Þorsteinn og spyr: Hver vill það?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×