Innlent

Öflugar loftvarnir mikilvægar

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra. MYND/Vilhelm Gunnarsson.

Björn Bjarnason segir enn gríðarlega mikilvægt að á Íslandi séu öflugar loftvarnir og að ekki sé búið að útiloka að hér verði herþotur í framtíðinni. Þetta kom fram á málþingi félags stjórnmálafræðinga í Háskóla Íslands í gær.

Bandaríkjamenn hafa viljað beina varnarviðræðunum í átt að öðrum þáttum en loftvörnum, svo sem vegabréfaeftirliti og baráttu gegn eiturlyfjum og mansali. Björn segir þetta þó fráleitt gefa til kynna að þeir séu með þessu að beina athyglinni frá brotthvarfi herþotnanna og segir Bandaríkjamenn viðurkenna fúslega mikilvægi þess að hér séu öflugar loftvarnir.

Magnea Marinósdóttir, stjórnmálafræðingur, minnti á að áður hafi Bandaríkjamenn tekið einhliða ákvarðanir um mönnun og útbúnað á Keflavíkurflugvelli, án þess að komið hefði til tals að það væri brot á varnarsamningnum. Hún sagði að þar sem Ísland hefði aldrei haft eigin her, hefðu Íslendingar ekki á að skipa sérfræðiþekkingu sem þyrfti til að meta varnarþörf Íslendinga. Hún lagði til að samið yrði við einkarekin herfyrirtæki um að gera úttekt á varnarþörfum Íslendinga sem væri óháð flokkadráttum Íslendinga og Bandaríkjamanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×