Innlent

Tillögur um tækifæri eftir brottför hersins

Ný tækifæri felast í brottför hersins sagði forsætisráðherra, áður en hann og utanríkisráðherra funduðu með bæjarstjóra Reykjanesbæjar um tillögur um aðgerðir til að efla atvinnustarfsemi í ljósi breyttrar stöðu.

Málið skekur nú byggðina pólitískt. Forsætisráðherra vonar að staða varnarsamningsins skýrist á morgun eftir fund framkvæmdastjóra NATO og Bandaríkjaforseta.

Fundinum lauk rétt fyrir fréttir Ákveðið var að skipa starfshóp, að tillögu forsætisráðherra, sem í verða fjórir frá ríkinu og þrír frá sveitarfélögunum.

Í tillögunum er því einnig lýst yfir að Norðurál sér reiðubúið að hefja framkvæmdir við 120 þúsund tonna álver í Helguvík strax á næsta ári. Vonir standa til að það skapi um 500 ársverk.

Jóhann Geirsson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar sakar meirihlutann í bæjarstjórn um andvaraleysi og að tillögur þeirra hefðu mátt koma miklu fyrr því löngu hafi verið ljóst að herinn færi.

Málið hefur hleypt miklum pólitískum hita í andstæðar fylkingar í Reykjanesbæ. Endurspeglast þessi hiti í deilum um fundarstað á morgun fyrir fyrirhugaðan borgarfund forsætisráðherra og utanríkisráðherra með starfsmönnum varnarliðsins íslenskum og öllum þeim er hagsmuna hafa að gæta. Fundinn skal halda á kosningaskrifstofu A-listans, lista Samfylkingar, Framsóknar og óðháðra. Þetta gagnrýna sjálfstæðismenn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×