Innlent

Verðlaunuð fyrir stærðfræðikunnáttu

24 börn á aldrinum níu til tólf ára hafa varið frítíma sínum í vetur við að leysa stærðfræðiþrautir sem reyndust flestum fullorðnum einstaklingum um megn. Útskriftarhátíð þeirra var haldin í Háskólanum í Reykjavík í gær.

Börnin hafa tekið þátt í átaki Kennslu- og lýðheilsudeildar Háskólans í Reykjavík sem ber heitið "Stærðfræði er skemmtileg". Tilgangurinn með því er að vekja athygli á mikilvægi góðrar stærðfræðikennslu og þýðingu hennar fyrir íslenskt samfélag. Börnin 24 sem tekið hafa þátt í námskeiðinu í vetur eru öll úr Hlíðaskóla en á næsta ári stefnir Háskólinn í Reykjavík að því að bjóða börnum í öllum grunnskólum Reykjavíkur upp á námskeiðið.

Chien Tai Shill, verkefnisstjóri ólympíustærðfræði hjá Háskólanum í Reykjavík, segir þrautirnar sem börnin takast á við mjög erfiðar. Þau verði að finna út hvernig þau leysi þær og beita mörgum aðferðum til þess.

En hvernig verða ungir krakkar svona færir í stærðfræði? Breki Bjarnason, úr sjötta bekk, sem hlaut gullverðlaun, og silfurverðlaunahafinn Áskell Valur Helgason, úr 4. bekk, segja báðir að það sé fyrst og fremst áhugi og vinna. Báðir segja þeir stærðfræðina sína uppáhaldsgrein og leggja mikla rækt í að leysa verkefnin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×