Innlent

Margt bogið við kvótaúthlutanir í Sandgerði

MYND/Vísir

Smábátaeiganda í Sandgerði finnst margt bogið við kvótaúthlutanir bæjarstjórnarinnar. Bæjarstjóri vísar öllum ásökunum á bug.

Sigurgeir Jónsson skrifaði opið bréf fyrir hönd eignarhaldsfélagsins Hvítings ehf. til bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar og birtist það á vef Víkurfrétta í gær. Þar segir Sigurgeir meðal annars að hann hafi, einu sinni sem oftar, sótt um kvóta fyrir þetta fiskveiðiár og á dögunum hafi hann fengið sent svarbréf sem undirritað var af bæjarstjóra. Þar standi að Sighvatur eigi að greiða 1.350 þúsund krónur fyrir 17. mars. Sighvatur segir að hann hafi einnig fengið boð um þetta undanfarin ár, sem hann hafnaði fyrstu tvö árin, upphæð upp á 220 þúsund krónur, en í fyrra var upphæðin 300 þúsund krónur sem hann borgaði. Hann fékk hins vegar aldrei kvótann, og enga nótu, og ekki heldur endurgreiðslu sem hann fór fram á sl. sumar.

Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri Sandgerðisbæjar, segir að ekkert bæjarfélag hafi farið eins illa út úr kvótatilflutningi og Sandgerði, og byggðakvótinn hafi minnkað úr tólf þúsund tonnum í aðeins 400 tonn. Á sameiginlegum fundi bæjarstjórnar og allra útgerðaraðila eftir breytinguna hafi verið samið um að fara nýjar leiðir og úr varð svokallaður „samstarfssamningur", sem Sigurður segir alla sátta við, nema Sigurgeir.

Og bæjarstjórinn vísar því á bug að menn fái ekki nótu fyrir greiðslu kvótans. Það fái allir sem séu í samstarfinu kvittun frá bankanum um innlögnina. Svo þegar allt dæmið sé gert upp fái allir „venjulegan" ársreikning fyrir sinni „þátttöku". Hann þvertekur því fyrir að það sé nokkuð óeðlilegt við úthlutun kvótans.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×