Innlent

Gætum minnkað eldsneytisneyslu um helming á tíu árum

Þorkell Helgason orkumálastjóri segir að Íslendingar gætu minnkað eldsneytisneyslu ökutækja um helming á tíu árum með því að breyta samsetningu bílaflotans á Íslandi. Þetta kom fram í máli hans á aðalfundi Orkumálastofnunar í dag.

Hann telur skattalegar aðgerðir geta hjálpað til við að halda stærð bíla í skefjum en einnig þyrfti að koma til samstillt átak þjóðarinnar um að nýta sér sparneytna bíla. Hann nefnir í þessu samhengi svokallaða tvinnbíla sem þegar eru til reiðu og komast af með nær helmingi minna bensín en sambærilegir bílar.

Þorkell spáir hækkandi orkuverði, jafnt á raforku og olíuafurðum. Þetta muni koma sér vel fyrir orkufyrirtæki en augljóslega verði dýrara að reka bíl eða gera út skip. Hann segir orkufyrirtæki Íslendinga muni hagnast mikið í framtíðinni því sé afar mikilvægt að stjórnvöld móti skýra stefnu í orkumálum. Eins og er sé tiltölulega jöfn eignaraðild þjóðarinnar að orkufyrirtækjunum en í framtíðinni gætu þau komist í einkaeigu þó það sé ekki fyrirætlun stjórnvalda. Þá þurfi að vera til skýr orkumálastefna til þess að arðurinn af þessari auðlind dreifist jafnt til þjóðarinnar eins og vera ber.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×