Innlent

Tugmilljóna tjón í bruna í Garðinum

Slökkviliði Brunavarna Suðurnesja tókst á áttunda tímanum að slökkva eld sem kviknaði í stóru atvinnuhúsi í svonefndum Kothúsum í Garðinum á Reykjanesi um klukkan hálf fjögur í nótt. Enn er er þó verið að slökkva í glæðum á nokkrum stöðum. Ljóst er að þar hefur orðið tuga milljóna tjón því hluti hússins er rústir einar.

Enginn var í húsinu þegar eldurinn kom upp og virðist hann hafa verið búinn að ná sér vel á strik og mynda mikinn hita í húsinu þegar hans varð vart. Þegar slökkviliðið kom á vettvang hafði eldurinn læst sig í hluta þekju hússins og logaði glatt innandyra í hluta þess. Svo vel vildi til að vindátt var hagstæð í nótt þannig að reyk lagði ekki yfir þorpið, en lögregla fór þó í nokkur hús og benti fólki á að loka öllum gluggum. Útvegsfyrirtækið Garðskagi rak fiskvinnslu í húsinu um árabil, en nú er þar listasmiðja og keramikverkstæði. Engan hefur sakað við slökkvistarfið og eru eldsupptök ókunn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×