Innlent

Þriggja akreina vegur hannaður milli Reykjavíkur og Hveragerðis

Undirbúningur er hafinn að breikkun Suðurlandsvegar milli Reykjavíkur og Hveragerðis. Stefnt er að því að vegurinn verði þriggja akreina og að framkvæmdir hefjist á næsta ári.

Nýr þriggja akreina vegur um Svínahraun var opnaður umferð síðastliðið haust en þessi kafli Suðurlandvegar er um sex kílómetra langur. Nú hefur Vegagerðin óskað eftir tilboðum í hönnun á samskonar breikkun þeirra kafla sem eftir eru á leiðinni allt frá Geithálsi í útjaðri Reykjavíkur og til Hveragerðis. Fyrsti kafli, um Hellisheiði, yrði boðinn út snemma á næsta ári. Næsti kafli yrði síðan frá Litlu Kaffistofunni og meðfram Sandskeiði.

Það ræðst hins vegar af fjárveitingum hversu hratt verkið vinnst en Jónas Snæbjörnsson, svæðisstjóri hjá Vegagerðinni, áætlar að það gæti tekið fimm til sex ár.

Kaflinn næst Reykjavík, frá Rauðavatni að Geithálsi, yrði ekki þrjár akreinar heldur fjórar.

Heildarkostnaður við að gera þriggja akreina veg frá Reykjavík austur á Selfoss er áætlaður um tveir til þrír milljarðar króna. Fjögurra akreina vegur myndi hins vegar sjö til átta milljarða króna, samkvæmt áætlun Vegagerðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×