Innlent

Enn einn kvöldfundurinn um vatnalög

Umræður um vatnalagafrumvarp ríkisstjórnarinnar halda áfram á Alþingi í dag, eftir enn einn kvöldfundinn í gær, þar sem aðeins örfáir þingmenn komust í ræðustól. Ekki er útlit fyrir að umræðu um málið ljúki á næstunni. Við upphaf umræðunnar í gærkvöldi gagnrýndi stjórnarandstaðan fundarstörf forseta og krafðist þess að skipulagi væri komið á þingstörf svo þingmenn gætu skipulagt tíma sinn í samræmi við það.

Stjórnarandstaðan gagnrýndi harðlega að engin tímamörk væri sett á umræðuna og að ekki væri gefið upp hversu lengi þingfundur ætti að standa. Mörður Árnason krafðist þess að fá að vita hve lengi hann myndi standa og svaraði forseti því til að það lægi ekki fyrir. Einar Már Sigurðsson sagði lágmark að fá að vita hvað væri kvöldfundur og hvað ekki. Þingforseti ítrekaði að hann gæti ekki gefið upp hve lengi kvöldfundurinn stæði enda vildu fundir oft dragast á langinn á þinginu og skildi Einar Már það svo að fundurinn gæti breyst í næturfund. Og það varð raunin, því þingfundur stóð fram yfir miðnætti í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×