Innlent

Borgarbúar borga fyrir lagningu ljósleiðara á Seltjarnarnesi

Lagning ljósleiðara í mörgum hverfum Reykjavíkur hefur setið á hakanum á sama tíma og borgarbúar eru látnir standa undir kostnaði við ljósleiðaravæðingu í öðrum sveitarfélögum. Þessu heldur Félag sjálfstæðismanna í Vestur- og miðbæ fram og vandar borgaryfirvöldum ekki kveðjurnar.

Orkuveita Reykjavíkur gerði nýlega samning við Seltjarnarnesbæ um að leggja ljósleiðarakerfi í bænum og á verkinu að vera lokið á þessu ári. Formaður Félags sjálfstæðismanna í Vestur- og miðbæ, Sigríður Á. Andersen, segir þetta gert bæjarbúum á Seltjarnarnesi að kostnaðarlausu og því borgi íbúar Reykjavíkur brúsann. Það eitt og sér sé ámælisvert en við þetta bætist að á meðan bíði íbúar elsta hvefis Reykjavíkur eftir því að ljósleiðarar verði lagðir í þeirra hús. Einu svörin sem fáist séu að því muni a.m.k. ekki ljúka á þessu ári.

Sigríður segir þetta langt frá því að vera eina dæmið um að borgaryfirvöld líti fram hjá hagsmunum íbúa í miðbæ og Vesturbæ Reykjavíkur og nefnir í því sambandi t.a.m. viðhald og viðgerðir á gangstéttum, sem og hinn langvarandi skort á bílastæðum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×