Innlent

Afli fiskiskipa hefur dregist saman um 40%

MYND/Vísir

Afli íslenskra fiskiskipa hefur dregist saman um tæplega fjörutíu prósent á yfirstandandi fiskveiðiári miðað við síðasta ár. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Fiskistofu í tilefni þess að í lok febrúar var fiskveiðiárið hálfnað. Heildaraflinn var þá kominn í tæplega 580 þúsund tonn en á sama tíma á síðastliðnu fiskveiðiári var aflinn ríflega 960 þúsund tonn, eða um fjörutíu prósentum meiri. Þar vegur þyngst minni afli uppsjávartegunda en afli loðnu og kolmunna á þessu fiskveiðiári er rúmlega 370 þúsund tonnum minni en hann var á sama tíma í fyrra. Botnfiskaflinn er líka minni núna, og rækjuveiðar á Íslandsmiðum virðast hafa lagst af, að minnsta kosti í bili.

Heildaraflinn í febrúar síðastliðnum var um 214 þúsund tonn samkvæmt bráðabirgðatölum Fiskistofu. Það er tæplega áttatíu og sjö þúsund tonnum minni afli en í febrúar í fyrra og er skýringuna að finna í minni loðnuafla.

Fiskveiðiárið er frá 1. september til 31. ágúst. Heildaraflamarkið fyrir þetta ár er tæplega 395 þúsund tonn og voru eftirstöðvar í lok febrúar 187 þúsund tonn. Það eru talsvert minni eftirstöðvar en á sama tíma í fyrra, en þess ber að geta að aflamarkið á síðasta fiskveiðiári var um þrjátíu og fimm þúsund tonnum hærra en í ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×