Innlent

Nýtt bóluefni gegn leghálskrabbameini

Lyfjafyrirtækið GlaxoSmithKline ehf. hefur sótt um markaðsleyfi til Evrópsku lyfjastofnunarinnar fyrir nýtt bóluefni gegn leghálskrabbameini. Ef allt gengur að óskum má reikna með að bóluefnið verði komið á markað í Evrópu á næsta ári.

Leghálskrabbamein er annað algengasta krabbamein í konum um allan heim. Árlega greinast um 500.000 konur með ný tilfelli í heiminum en hér á landi greinast árlega um 15 konur með leghálskrabbamein. Á hverju ári deyja um 270.000 konur úr leghálskrabbameini en krabbameinið er algengasta dánarorsök vegna krabbameins í þróunarlöndunum. Bóluefni gegn leghálskrabbameini er því gríðarlega þýðingarmikið fyrir konur um allan heim.

GlaxoSmithKline ehf. bíður þess nú að fá markaðsleyfi fyrir bóluefnið en gangi allt að óskum þá fer bóluefnið líklega á markað í Evrópu á næsta ári. Ekki liggur þó fyrir að svo stöddu hvernær íslenskar konur eiga þess kost að verða bólusettar gegn leghálskrabbameini, né heldur hvort ríkið muni greiða fyrir bólusetningu að hluta til eða öllu leyti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×