Innlent

Heilbrigðisráðherra tók ekki af skarið

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra tók ekki af skarið í umræðum á Alþingi í dag og lofaði fjármögnun til hágæsluherbergis á Barnaspítalanum. Þess í stað benti hún á að spítalinn hefði ekki haft þetta á forgangslista. Þingumræðurnar voru sprottnar af umfjöllun Kompáss í í gærkvöld, en þar sögðu foreldrar frá átakanlegri reynslu af því þegar barn þeirra dó í höndunum á þeim, á langri leið frá Barnaspítalanum til gjörgæslu.

Það er ekkert hágæsluherbergi á nýja Barnaspítlanum og komi upp bráðatilvik þarf að fara með börnin yfir í næsta hús. Þetta er löng leið - ekki síst þegar mínútur skipta sköpum eins og kom fram í fréttaskýringaþættinum Kompás í gærkvöld. Foreldrar vitnuðu þar um átakalega reynslu sína af því að hlaupa með fárveikt barn sitt í fanginu þessa löngu leið. Barnið dó í örmum þeirra áður en komist var á leiðarenda.

Ágúst Ólafur Ágústsson vitnaði í þáttinn í gær og hvatti til þess að ráðherra tæki á málum strax - án hágæsluherbergis væri ekki hægt að stæra sig af framúrskarandi heilbrigðisþjónustu.

Það kostar 60 milljónir árlega að reka gæsluherbergið á Barnaspítalanum, sem eru einungis 0,2% af rekstrarkostnaði Landspítalans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×