Innlent

Hlutabréf féllu - krónan lækkaði

Hlutabréf í Kauphöll Íslands féllu um nærri fjögur prósent í dag. Þetta er mesta lækkun sem orðið hefur á einum degi hérlendis í eitt og hálft ár. FL-group lækkaði mest eða um 6,7 pósent, en önnur félög sem lækkuðu verulega voru Kaupþing, Dagsbrún, Landsbankinn og Íslandsbanki, sem nú heitir Glitnir. Þegar mesta lækkun síðustu þrjátíu daga er skoðuð sést að þar eru bankarnir í efstu sætum, Straumur-Burðarás, Kaupþing, Íslandsbanki og Landsbankinn en síðan kemur Flaga.

Forstjóri Kaupþings-banka telur þessar lækkanir ekki óeðlilegar enda hafi hlutabréf hérlendis hækkað verulega á síðari helmingi síðasta árs og í byrjun þessa.

Þróun Úrvalsvísiitölunnar síðastliðna tólf mánuði sýnir að fjárfestar á íslenska markaðnum þurfa ekki að kvarta. Vísitalan fór úr tæplega fjögur þúsund stigum upp í tæplega sjöþúsund þegar hún náði hámarki þann 15. febrúar. Síðan hafa hlutabréf verið að lækka og í dag endaði vísitalan í 5.959, - 56 prósentum hærri en fyrir ári.

Gengi krónunnar hélt einnig áfram að lækka í dag og fór niður um tvö prósent og fór bandaríkjadollar í tæpar 72 krónur og evran í 85 krónur. Krónan hefur ekki verið veikari frá því haustið 2004.

Erlend fjármálafyrirtæki hafa sent ýmist neikvæðar eða jákvæðar umsagnir um íslensku bankana í dag og um helgina. Fjárfestingarbankinn Morgan Stanley sagði að skuldabréfamarkaðir erlendis hefðu brugðist of hart við neikvæðum fréttum og mælti með kaupum á skuldabréfum Landsbankans og Íslandsbanka en treysti sér ekki til að mæla með kaupum á skuldabréfum Kaupþings.

Forstjóri Kaupþings telur stöðu bankanna og umræðu um þá ekki áhyggjuefni fyrir íslenskt efnahagslíf. Hann telur að öfund skýri að einhverju leyti neikvæða gagnrýni frá hinum Norðurlöndunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×