Innlent

Apple trúir ekki fjöldatölum ipodspilara á Íslandi

Ekki fæst lengur gert við ipodspilara sem keyptir eru í útlöndum nema kassakvittun sé framvísað vegna þess að í höfuðstöðvum Apple eru menn vantrúaðir á að svo margir ipodar geti verið á Íslandi miðað við íslenskar sölutölur.

Nýverið fóru höfuðstöðvar Apple að krefjast þess að fá kvittanir fyrir öllum ipodviðgerðum, en áður gátu Íslendingar gengið að viðgerðaþjónustu vísri án allra pappíra. Ástæða breyttra reglna er sú að í útlöndum trúa menn ekki að svo mörg ipodtæki geti verið á Íslandi, miðað við sölutölur hjá Applebúðinni í Reykjavík. Steingrímur Árnason, þróunarstjóri hjá Apple á Íslandi, áætlar að um fimmtíu þúsund ipodspilarar séu á Íslandi, en þar af er aðeins um fimmtungur keyptur hérlendis. Viðræður hafa staðið yfir við höfuðstöðvarnar í Evrópu til að útskýra aðstæður á Íslandi en þangað til neitar Apple að greiða fyrir ipod-viðgerðir nema staðfest sé hvar og hvenær spilarinn var keyptur.

Í ofanálag hefur Apple á Íslandi þurft að tvígreiða innflutningsgjöld í þeim tilvikum þar sem nýr ipod kemur í stað ónýts tækis sem sent hefur verið út. Þetta þýðir að ef komið er með ipod í viðgerð hér á landi sem keyptur var í Bandaríkjunum og í ljós kemur að hann er ónýtur, þá þarf Apple á Íslandi að borga 12.000 krónur í aðflutningsgjöld fyrir nýjan ipod sem kemur í staðinn fyrir þann ónýta, jafnvel þó að sá gamli sé sendur út aftur og skýrt sé að einn komi í annars stað. Þetta stendur hins vegar til bóta og mun þessi tvítekning aðflutningsgjalda falli niður innan skamms.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×