Innlent

Valgerður sakar Styrmi um óvild í sinn garð

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra sakar ritstjóra Morgunblaðsins um óvild í sinn garð. Hún telur ritstjórann jafnvel eiga erfitt með að eiga eðlileg samskipti við konur án þess að tala niður til þeirra.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, veltir fyrir sér samskiptum sínum og ritstjóra Morgunblaðsins á heimasíðu sinni í dag. Valgerður segir sig og Styrmi Gunnarsson, ritstjóra Morgunblaðsins, oft á tíðum hafa verið ósammála. Hún hafi hitt Styrmi, á skrifstofu hans, fljótlega eftir að hún tók við embætti ráðherra. Þar hafi hún meðal annars gagnrýnt hann fyrir hve nátengdur Sjálfstæðisflokknum hann sé. Valgerður segir Styrmi hafa boðið sér að eiga reglulega með sér fundi en hún hafi afþakkað það. Hún hafi oft síðan tekist á við ritstjórann og að uppskorið árásir af hans hálfu.

Valgerður víkur svo að Stakasteinum í Morgunblaðinu í dag þar sem ýjað er að því að hún hafi ekki þekkingu til að fjalla um Evrópumál Þetta segir hún ekki rétt og spyr afhverju þessi óvild blaðsins í hennar garð stafi og spyr hvort Styrmir sé óhæfur til að eiga samkipti við konur án þess að tala niður til þeirra. Hún segist þó hvergi bangin og lýkur pistli sínum á að segja: ,,ég læt þennan karl ekki vaða yfir mig ítrekað með niðurlægjandi ummælum og mun áfram svara fyrir mig þegar ég tel ástæðu til".






Fleiri fréttir

Sjá meira


×