Innlent

Besti árangur FL Group frá upphafi

Hannes Smárason, forstjóri FL Group.
Hannes Smárason, forstjóri FL Group.

16 FL Group skilaði rúmlega tuttugu milljarða króna hagnaði fyrir skatta á síðasta ári. Afkoman er nokkuð betri en greiningardeildir bankanna höfðu spáð og er forstjórinn hæstánægður.

Hagnaður FL Group á síðasta ári er fimmfalt meiri en árið áður þegar hann nam 4,3 milljörðum króna og má rekja nær allan hagnaðinn til fjárfestingastarfsemi félagsins. Hagnaðurinn eftir skatta nam 17,3 milljörðum króna í fyrra.

"Við erum geysilega ánægðir með þá afkomu sem við erum að sýna 2005 og það sem af er þessu ári," segir Hannes Smárason, forstjóri FL Group. "Okkur finnst það bera vott um þann árangur sem við erum að ná með því að breyta félaginu í fjárfestingafélag. Tölurnar tala sýnu máli; við höfum aldrei sýnt betri afkomu en núna."

Heildareignir félagsins í lok síðasta árs voru metnar á 132 milljarða króna króna en voru komnar í um 150 milljarða króna í gær. Af þeim voru 68 milljarðar króna í erlendum hlutabréfum. Hannes segir þessa miklu fjárfestingu í útlöndum hafa gert fyrirtækinu kleift að takast á við sveiflur í íslensku efnahagslífi. "Við bjuggum til ákveðna sveiflujöfnun með því að fjárfesta mikið erlendis."

Hannes segir ljóst að fyrirtækið haldi áfram að fjárfesta erlendis en að engin ákvörðun hafi verið tekin um að flytja starfsemi frá Íslandi. Félagið sé íslenskt félag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×