Innlent

Verð Húsasmiðjunnar áþekk vöruverði Bauhaus

Forstjóri Húsasmiðjunnar fullyrðir að vöruverð fyrirtækisins sé sambærilegt við verð Bauhaus og á tíðum lægra. Þá fullyrðir hann að Húsasmiðjan hafi boðið vel yfir uppsett verð í lóð Urriðaholts í Garðabæ, lóð sem Byko segist hafa fengið á uppsettu verði.

Fáum var brugðið við þær fréttir að Borgarráð samþykkti einróma í dag að úthluta Bauhaus lóð við Úlfarsfell. Þróunarstjóri fyrirtækisins lét hafa eftir sér að fyrirtækið muni knýja verð á markaðnum niður um uþb tuttugu prósent þar sem Byko og Húsasmiðjan hafi fram til þessa haldið verði sínu 20 til 30 prósentum yfir eðlilegu markaðsverði. Forstjóri Húsasmiðjunnar segir það óígrundaða staðhæfingu.

Telja má fullvíst að koma þýska risans á íslenskan markað muni hleypa nýju blóði í samkeppni á byggingavörumarkaðnum. Ekki gekk það þrautalaust hjá fyrirtækinu að afla sér lóðar á höfuðborgarsvæðinu. Í Garðabæ laut Bauhaus ásamt Húsasmiðjunni í grasið fyrir Byko eins og frægt er orðið. Ekki eru öll kurl komin til grafar varðandi hvernig það mál var útkljáð. Forstjóri Byko hefur sagt að fyrirtækið hafi borgað fyrir lóðina samkvæmt fyrirfram ákveðinni gjaldskrá. Forstjóri Urriðaholts sem seldi lóðina segir keppinautana hafa boðið sambærilegt verð. Þetta stangast á við fullyrðingu forstjóra Húsasmiðjunnar sem segir fyrirtækið og Bauhaus hafa boðið verð umfram gjaldskrá.

Því má spyrja hvað Byko fékk lóðina á? Ekki náðist í forstjóra Byko í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×