Innlent

Gætu hafið starfsemi um svipað leyti og álver á Húsavík

Hitaveita Suðurnesja
Hitaveita Suðurnesja MYND/Vísir

Hitaveita Suðurnesja telur sig geta útvegað nægilega orku til álvers í Helguvík til að það geti hafið starfsemi um svipað leyti og álver á Húsavík. Forstjóri Hitaveitunnar, Júlíus Jónsson, telur hins vegar að það geti verið skynsamlegt að fresta framkvæmdum þar sem öll uppbygging verði dýrari á þenslutímum.

Hitaveita Suðurnesja stefnir að því að gangsetja hina nýju Reykjanesvirkjun þann 1. maí næstkomandi en orka hennar fer til álversins á Grundartanga. Fyrir á Hitaveitan orkuverið í Svartsengi. Eftir að Orkuveita Reykjavíkur gekk úr skaftinu í fyrra er Hitaveita Suðurnesja eina orkufyrirtækið í viðræðum um að útvega rafmagn til álvers í Helguvík. Júlíus vonast til að þá orku geti fyrirtæki fengið úr háhitasvæðum Reykjanesfjallgarðar, með stækkun Reykjanesvirkjunar og með nýjum virkjunum, en fyrirtækið er með rannsóknarleyfi í Trölladyngju og Sandfelli við Krýsuvík. Hann segir að framleiðsla gæti hafist árið 2010 eða 2011, ef allt gengur upp, en það sé spurning hversu sniðugt það væri viðskiptalega ef hinar tvær hugmyndirnar verði að veruleika vegna væntanlegrar þenslu. Því geti farið svo að framkvæmdum verði frestað lítillega. „Við erum bara í viðskiptum, ekki í pólitík," segir Júlíus.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×