Innlent

Ljósmæður óánægðar með samningskjör fyrir heimaþjónustu

Samningur milli Ljósmæðrafélags Íslands og Tryggingastofnunar ríkisins rennur út á miðnætti í kvöld og enginn fundur er boðaður milli ljósmæðra og Tryggingastofnunar. Ljósmæður segja verktakagreiðslur fyrir heimaþjónustu lágar, því að starfinu fylgi mikil binding og ekki sé greitt aukalega fyrir akstur á milli staða eða annan útlagðan kostnað.

Ljóst er að heimaþjónusta sparar ríkinu gríðarlega fjárhæð miðað við sængurlegu. Guðlaug Einarsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, segir ljósmæður þegar hafa lækkað kröfur sínar of mikið og óhugsandi sé að þær bakki meira. Kröfur þeirra séu þegar komnar niður fyrir útreiknaðan kostnað við verkið. Þar sem ljósmóðirin þarf að keyra lengra en reiknað er með, ef ljósmóðir af Selfossi þarf að keyra til Þorlákshafnar, svo dæmi sé nefnt, þá fara vinnulaunin nær öll í aksturskostnað því ekki sé komið til móts við aukakostnaðinn.

Heimaþjónusta við nýbakaðar mæður hefur vaxið mikið síðastliðin ár, árið 1994 fóru aðeins tæp fjögur prósent mæðra heim eftir fæðingu í stað sængurlegu á sjúkrahúsi. Nú fara sextíu og fjögur prósent mæðra heim einum og hálfum sólarhring eftir fæðingu og hlutfallið er enn hærra ef aðeins er horft til Reykjavíkur þar sem sængurlega mæðra á sjúkrahúsi er aðeins í undantekningartilfellum. Einn dagur í sængurlegu er ríkinu jafndýr og heil vika í heimaþjónustu, það er því ljóst að heimaþjónustan hefur sparað ríkinu gífurlega mikið fé.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×