Innlent

Annar maðurinn lést en hinn slasaðist alvarlega

Annar mannanna tveggja sem voru í jeppa sem féll niður í sprungu á Hofsjökli í gær var látinn þegar björgunarmenn komu að. Hinn maðurinn er alvarlega slasaður og liggur á gjörgæslu.

Klukkan var rétt að verða eitt eftir miðnætti í nótt þegar þyrla Varnarliðsins lenti við Landspítalann háskólasjúkrahús með manninn sem slasaðist í slysinu á Hofsjökli síðdegis í gær. Hann liggur nú á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi og er líðan hans stöðug eftir atvikum. Hann er ekki í öndunarvél en er til eftirlits hjá læknum á gjörgæsludeildinni.

Tveir karlmenn á þrítugsaldri voru í bílnum sem féll niður í sprungu við Hásteina á Hofsjökli síðdegis í gær. Þrjár þyrlur og um þrjú hundruð björgunarsveitarmenn tóku þátt í björgunaraðgerðum. Þyrla danska herskipsins Tritorn var fyrst á staðinn. Áhöfn hennar átti í nokkrum vandræðum með að finna slysstaðinn en það tókst eftir nokkrar mínútur. Skömmu síðar komu tvær þyrlur Varnarliðsins á vettvang með björgunarútbúnað, um það bil fimmtíu björgunarsveitarmenn komu líka á slysstað.

Tveir sjúkraflutningamenn af höfuðborgarsvæðinu sem komu á svæðið í þyrlu þurftu að síga á annan tug metra niður í sprunguna til að ná til mannanna þar sem þeir voru fastir í jeppa sínum. Var annar maðurinn látinn þegar að þeim var komið. Jeppinn var mjög illa skemmdur eftir fallið og þurftu björgunarmenn að beita klippum til að skera hann sundur svo hægt væri að ná mönnunum út. Mennirnir voru síðan hífðir upp úr sprungunni og sá slasaði fluttur með þyrlu til Reykjavíkur sem fyrr segir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×