Innlent

Sjö skólar kynna námsframboð sitt

Fjöldi verðandi háskólanema hefur lagt leið sína í Borgarleikhúsið í dag þar sem sjö háskólar kynna nú starfsemi sína. Nemendur geta valið á milli níutíu og níu námsgreina.

Allir háskólar landsins, utan Háskóla Íslands, kynna nú starfsemi sína í Borgarleikhúsinu. Háskólanemendur framtíðarinnar geta því valið á milli sjö skóla og níutíu og níu námsleiða á svo ólíkum sviðum msem viðskiptalögfræði, listnámi og landslagsarkitektúr svo nokkur dæmi séu nefnd.

Einhverjum kynni að detta í hug að þetta margir skólar og þetta margar námsleiðir kynnu að rugla fólk aðeins í rýminu. En verður þetta til að auðvelda fólki námið?

"Ég ætla að vona það," segir Álfrún G. Guðrúnardóttir, kynningarstjóri Listaháskóla Íslands. Hún segir daginn hvort tveggja til þess fallinn að kynna margar námsleiðir fyrir fólki sem ekki veit hvaða nám heillar það og einnig sé hann gott tækifæri fyrir fólk sem er búið að ákveða hvað það vill læra til að nálgast frekari upplýsingar um námið.

Í fyrra mættu á þriðja þúsund manns á kynningu skólanna sjö. Alda Sigurðardóttir, kynningarstjóri Háskólans í Reykjavík, segir reynsluna af honum góða. Margir komi og kynni sér starfsemina, fari síðan heim með upplýsingar og ræði jafnvel við foreldra sína og vini áður en þeir taki ákvörðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×