Innlent

Byggja íbúðarhúsnæði á reit gömlu Hraðfrystistöðvarinnar

MYND/Valgarður

Íbúðarhúsnæði fyrir allt á annað hundrað manns mun rísa á reit gamla Hraðfrystistöðvarhússins við Mýrargötu. Framkvæmdir hefjast væntanlega í vor en byrjað var að rífa húsið í morgun.

Hraðfrystihúsið við Mýrargötu var byggt árið 1941 en það hefur verið stækkað nokkrum sinnum, síðast árið 1971. Nú stendur hins vegar til að rífa það enda engin starfsemi verið í því fjölda ára. Það er eignarhaldsfélagið Nýja Jórvík sem á lóðina sem húsið stendur á en upphaflega stóð til að endurhanna húsið og byggja upp íbúðir og vinnustofur fyrir listamenn. Frá því hefur nú verið fallið og staðinn verður byggt íbúðarhúsnæði á lóðinni.

Eins og greint hefur verið frá í fréttum stendur til að endurskipuleggja Mýrargötu- og slippasvæðið allt með það að markmiði að fjölga íbúum á svæðinu. Magnús Ingi Erlingsson, framkvæmdastjóri Nýju Jórvíkur,segir skipulag á lóðinni unnið í samvinnu við borgaryfirvöld.Verkefni sem þessi séu unnin með bæði atbeina stjórnmálamanna og embættismanna borgarinnar. Félagið hafi átt gott samstarf við þessa hópa. Þetta verkefni hafi tekið langan tíma en ákveðið hafi verið að hverfa frá listamannaíbúðunum og yfir venjulegar íbúðir í fyrrasumar.

Fjármögnun verksins er lokið að sögn Magnúsar og hönnunarvinna á lokastigi. Ekki er komið á hreint hvernig íbúðir verður um að ræða en endanlegar hugmyndir verða kynntar á næstu vikum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×