Innlent

Spáir hruni í mjöl- og lýsisiðnaði

Helsti sérfræðingur Norðmanna í mjöl- og lýsisiðnaði spáir því að fiskimjölsverksmiðjum muni stórfækka á Íslandi á næstunni vegna kreppu í greininni. Kolbjörn Giskeödegård sagði þetta á ráðstefnu í tengslum við sjávarútvegssýninguna í Lilleström í Noregi, sem nú stendur yfir og greinir Fiskaren frá þessu. Eins og NFS greindi nýverið frá, höfðu til skamms tíma sárafáar íslenska bræðslur verið gangsettar nema dag og dag og þá nánast aðeins til að vinna úr úrgangi, síðan í júní í fyrra, þótt eitthvað hafi ræst úr tímabundið síðustu daga. Um það bil fimmtán bræðslur eru hér á landi , dreifðar um landsbyggðinna, en Kolbjörn bendir á að að kreppa sé yfirvofandi í mjöl- og lýsisiðnaðinum, ekki bara á Íslandi, heldur við allt norðanvert Atlantshafið. Hann bendir á að ekki hafi einungis verið dregið úr veiðiheimildum í þær tegundir, sem einkum eru bræddar, heldur fari ört vaxandi hlutfall af þeim afla nú í frystingu til manneldis, og komi því ekki til bræðslunnar. Í framhaldi af þessu má geta þess að fiskimjöl og lýsi er þýðingarmikið fóður fyrir laxeldi, þannig að fóðrið kann að hækka í verði og þyngja róðurinn fyrir laxeldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×