Innlent

Alifuglar hér á landi verða lokaðir inni ef til fuglaflensu kemur

MYND/Hari

Reikna má með að alifuglar hér á landi verði lokaðir inni líkt og annars staðar á Norðurlöndum þegar og ef fuglaflensa berst hingað til lands. Sóttvarnalæknir segir að ekki verði gripið til sérstakra aðgerða nú umfram það sem þegar hefur verið gert eftir að fuglaflensa hefur greinst í Þýskalandi og Austurríki.

Yfirvöld í bæði Þýskalandi og Austurríki hafa bæði staðfest að fuglaflensa hafi greinst í tveimur dauðum svönum á hvorum stað, en þetta eru fyrstu tilfelli í löndunum. Alls hefur því fuglaflensa greinst í tíu Evrópulöndum og hafa stjórnvöld í Þýskalandi, Danmörku og Svíþjóð gefið út tilskipanir um að loka alifugla sína inni í húsum.

Haraldur Briem sótttvarnalæknir segir í ljósi þessara fregna að ekki verði gripið til sérstakra ráðstafana hér umfram það sem þegar hafi verið gert. Það sé búið að leggja upp áætlun um að fylgjast með ástandi farfugla þegar þeir komi hingað. Sýni verði tekin úr þeim og úr alifuglum til þess að komast að því hvort veirusmit hafi borist á milli þeirra. Fylgst sé með ástandinu og ef flensan bærist til landsins yrði gripið til sértækra ráðstafana sem yfirdýralæknir hafi umsjón með.

Haraldur segir erfitt að spá fyrir um það hvenær fuglaflensan muni greinast hér og í hve miklu magni en hann býst við að gefin verði út sams konar tilskipun og í Þýskalandi og hinum norrænu ríkjunum um að alifuglar verði lokaðir inni. Reynt verði að koma í veg fyrir allan samgang milli alifugla og villtra fugla.

Aðspurður hvort mikið sé um frjálsa alifugla á Íslandi segir Haraldur að svo sé ekki. Flestir séu í stórum kjúklingabúum sem séu lokuð en sums staðar séu þó landnámshænur sem gangi um frjálsar. Verið sé að kortleggja hvernig málum sé háttað.

Ríkisstjórninn samþykkti í gær að veita 56 milljónir til fuglaflensuvarna og fer hluti þess fjár til landlæknisembættisins. En er þetta nóg fé? Haraldur segir að á þessari stundu sé það nóg en meta verði ástandið eftir því sem þróunin sýni og þá verði að taka á því þegar þar að komi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×