Innlent

Undirskriftalistar í Hveragerði

MYND/Róbert

Tæplega fjögur hundruð Hvergerðingar hafa skrifað undir mómæli gegn því að bæjaryfirvöld semji við verktakafyrirtækið Eykt um uppbyggingu nýs bæjarhluta, án þess að athuga fleiri valkosti. Listinn var afhentur í morgun.

Orri Hlöðversson bæjarstjóri segir þetta allt of stóra framkvæmd og mikla áhættu til þess að bærinn fari út í þetta upp á eigin spýtur, því hafi verið ákveðið að semja við einn aðila um alla framkvæmdina. Eyþór H. Ólafsson, einn upphafsmanna undirskriftalistans, gagnrýnir hins vegar að önnur tilboð hafi ekki verið könnuð. Hann segir tvö tilboð hafa borist, sem bæði skili meiri peningum fyrir svæðið austan Varmár sem til stendur að byggja upp.

Bæjarstjóri segir hins vegar einungis hafa komið fram erindi frá lögfræðingi fyrir hönd ónafngreinds aðila en ekki ákveðið tilboð og ekki hafi verið kannað hvort það sé hagstæðara. Þetta verður líklega ekki gert þar sem samningaviðræður við Eykt eru komnar það langt að báðum aðilum þykir ólíklegt að bæjarstjórnin hætti við að semja við fyrirtækið á fundi sínum klukkan fimm í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×