Innlent

Fyrningarfrestur lengdur

Fyrningarfrestur vegna kynferðisbrota gegn börnum verður lengdur til muna samkvæmt frumvarpi sem dómsmálaráðherra kynnti í ríkisstjórn í morgun. Í sama frumvarpi er ákveðið að fara ekki sænsku leiðina og gera það refisvert að kaupa vændi.



Ráðherra kynnti drög að frumvarpi um endurskoðun laga um kynferðisbrot í morgun. Í frumvarpinu sem samið er af Ragnheiði Bragadóttur, lagaprófessor við Háskóla Íslands er reynt að auka réttarvernd þolenda kynferðisbrota. Meðal nýmæla í frumvarpinu er að komið er til móts við það sjónarmið að kynferðisbrot gegn börnum eigi ekki að fyrnast með sama hætti og önnur brot. Ekki er gengið svo langt að afnema fyrninguna að öllu leyti en með lagabreytingum er fyrningartíminn lengdur úr fimm árum í tíu, frá því sem nú er og byrja brotin ekki að fyrnast fyrr en barnið er orðið átján ára í stað fjórtán ára í núgildandi lögum.



Refsing fyrir kynferðisbrot gegn börnum yngri en fjórtán ára verða þyngd til muna. Refsingin getur nú orðið sú sama og fyrir nauðgun eða fangelsi allt að sextán árum.

Það er einnig lagt til að breyta lögum um vændi. Felld verða úr gildi lög sem banna vændi sér til framfærslu, sem talin eru byggjast á úreltu sjónarmiði. Þess í stað verður ólöglegt að bjóða fram, miðla eða óska eftir kynmökum með opinberum auglýsingum. Nokkuð er rætt um "sænsku leiðina" í greinagerð með frumvarpsdrögunum - það er, að gera það refsivert að kaupa kynlífsþjónustu. Það er meðal annars talið mæla gegn því að fara þessa leið að ekki sé komin nægjanleg reynsla á hana í Svíþjóð Það sé því ekki tímabært að lögfesta slíkt ákvæði hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×