Innlent

Söluandvirði Hjálpum þeim um átta milljónir króna

Hjálparstarf kirkjunnar tók á móti átta milljóna króna styrk til hjálparstarfs í Pakistan í Grensáskirkju í dag. Söluandviðri smáskífunnar Hjálpum þeim var hátt á tíundu milljón en ríkið tekur um tvær milljónir í söluskatt.

Fulltrúar söfnunarinnar, tónlistarfólk, 365 miðla, Haga og Sagafilm mættu í Grensáskirkju í dag til að afhenda framlagið sem safnast hefur með smáskífunni Hjálpum þeim. Shabana Zaman, sem er pakistönsk og búsett hér á landi til 12 ára, tók formlega á móti ávísuninni fyrir hönd landa sinna. Hún sagðist ánægð með framlag íslendinga og vildi koma á framfæri þökkum frá þeim um 50 pakistönum sem búsettir eru hér á landi.

Einar Karl Haraldsson, stjórnarformaður Hjálparstarfs kirkjunnar, er ánægður með hversu vel til tókst en gagnrýnir íslensk stjórnvöld fyrir að taka um tvær milljónir söfnunarfjárins í virðisaukaskatt. Hann segist þó vonast til að stjórnvöld endurskoði ákvörðun sína og styrki hjálparstarf í Pakistan, rétt eins og listamennirnir og allir þeir sem komu að gerð smáskífunnar og kaupum á henni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×