Innlent

Íslenskur maður og kona myrt í El Salvador

Íslendingur á fertugsaldri, Jón Þór Ólafsson, fannst myrtur í El Salvador í fyrradag. Á sama stað fannst einnig lík ungrar konu. Samkvæmt upplýsingum lögreglu í borginni San Salvador höfðu bæði verið skotin til bana.

Lögreglan í San Salvador hefur litlar upplýsingar um þessi morð. Hector Blanco, rannsóknarlögreglumaður hjá glæpadeild lögreglu í borginni segir að líkin hafi fundist af tilviljun á sunnudag við þjóðveginn frá San Salvador til Santa Ana um fjörutíu kílómetra frá borginni. Ekki sé víst að þau hafi verið myrt á þessum sama stað. Líkin fundust á sunnudag en ekki var vitað að þetta var Jón Þór fyrr en í gær.

Jón Þór var verkfræðingur og starfaði í San Salvador við gerð jarðvarmaorkuvers á vegum fyrirtækisins Enex. Að jafnaði hafa tveir til fjórir íslendingar verið við störf á vegum fyrirtækisins frá því í fyrravor. Samkvæmt tilkynningu frá aðstandendum hófst leit að Jóni á sunnudag eftir að samstarfsmenn hans höfðu gert lögreglu viðvart.

Jón Þór lætur eftir sig sambýliskonu og tvö ung börn á skólaaldri úr fyrri sambúð.

Lárus Elíasson, framkvæmdastjóri ENEX segir að Jón Þór hafi verið ásamt öðrum íslendingi í El Salvador en báðir voru staðsettir í San Salvador. Jón Þór hafi verið saknað síðan á laugardag. Lárus segir að starfsmenn Enex séu harmi slegnir yfir þessum atburði. Glæpir séu tíiðir í El Salvador en allt hafi veirð reynt að gera til að auka öryggi íslensku starfsmannnana.

Tildrög þess að Jón Þór fannst látinn eru ókunn en alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra og lögregluyfirvöld í El Salvador fara með rannsókn málsins.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×