Innlent

Komið til móts við fækkun rýma á Sólvangi

MYND/Heiða

Tíu dvalarrýmum á Hrafnistu í Hafnarfirði verður breytt í hjúkrunarrými til að koma til móts við fækkun rýma á hjúkrunarheimilinu Sólvangi. Þetta er meðal þess sem fram kom á blaðamannafundi í dag þar sem kynntar voru tillögur nefndar um uppbyggingu öldrunarþjónustu í Hafnarfirði.

Nefndin kynnti skýrslu sína og tillögur að úrbótum í Hafnarborg í dag. Tillögunum, sem beinast jöfnum höndum að bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði og heilbrigðisyfirvöldum, er skipt í fimm flokka . Í fyrsta lagi er um að ræða aðgerðir vegna fækkunar rýma á hjúkrunarheimilinu Sólvangi, í annan stað tillögur sem snúa að uppbyggingu þjónustu til að styðja sjálfstæða búsetu aldraðra, og í þriðja lagi þær sem snerta sérhæfða sjúkrahús- og stofnanaþjónustu. Þá leggur nefndin fram tillögur varðandi miðstöð öldrunarþjónustu í Hafnarfirði, auk þess sem kynnt voru drög að undirbúningi byggingu nýs hjúkrunarheimilis.

Síðastliðið haust skapaðist töluverð umræða um það þrönga rými sem þeir sem dvelja á Sólvangi þurfa að búa við. Að mati nefndarinnar, að teknu tilliti til álits sérfræðinga myndu enn frekari endurbætur á núverandi húsakynnum Sólvangs verða mjög kostnaðarsamar og vart framkvæmanlegar miðað við nútímakröfur og skilyrði laga um hjúkrunarheimili. Meðal þess sem nefndin leggur til er að samið verði við Hrafnistu um tímabundinn forgang að þeim fimm rýmum á Vífilsstöðum sem Hrafnista hefur til ráðstöfunar og að samið verði um að breyta tíu dvalarrýmum á Hrafnistu í hjúkrunarrými. Að sögn Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra hefur nú þegar verið samið um þetta.

Hvað varðar uppbyggingu þjónustu til að styðja sjálfstæða búsetu aldraðra er meðal annars lagt til að samþætta heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu, að heimahjúkrun verði tryggð allan sólarhringinn og að dagvistarrýmum verði fjölgað. Þá leggur nefndin til að hafinn verði sem fyrst undirbúningur við skipulag og hönnun nýs hjúkrunarheimilis í Hafnarfirði með litlum einingum, sem hver um sig á að rúma sex til tíu litlar íbúðir, þar sem áhersla sé lögð á sjálfræði og sjálfstæði fólks.

Að sögn heilbrigðisráðherra er óvíst hversu mikið slíkt hjúkrunarheimili myndi kosta, en það, ásamt möguleikunum á að hrinda öðrum tillögum nefndarinnar í framkvæmd, verði skoðað í nánustu framtíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×