Innlent

Hjólabrautir mögulega í vegalög

Vera kann að ríkið taki þátt í að koma á þéttriðnu neti hjólastíga í þéttbýlisstöðum og á milli þeirra á næstu árum geri Alþingi góðan róm að þingsályktunartillögu sem kynnt verður í vikunni.

Hjólreiðar eru helstu samgöngutæki í mörgum evrópskum borgum eins og Amsterdam, Brussel, Kaupmannahöfn og víðar. Þar liggja víða brautir meðfram götum sem eingöngu eru ætlaðar hjólreiðarmönnum. Ekki fer mikið fyrir slíkum brautum í Reykjavík, á höfuðborgarsvæðinu eða landinu öllu. Einkabíllinn er allsráðandi í umferðinni og bílaumferð færist í vöxt. Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður, er einn flutningsmanna þingsályktunartillögu sem kynnt verður á Alþingi í vikunni. Í henni er lagt til að skipuð verði nefnd sem undirbúi áætlun og lagabreytingar sem geri ráð fyrir hjólreiðum sem fullgildum og viðurkenndum kosti í samgöngumálum. Hjólreiðabrautum verði fundinn staður í vegalögum og ríkið taki þátt í gerð brautanna. Þannig verði það á ábyrgð ríkisins að þegar lagðir eru vegir þar með taldar stofnbrautir í þéttbýli að þar verði líka hjólreiðabrautir.

Fyrsta skrefið er að koma hjólreiðabrautum inní vegalög þannig að þær fylgi stofnvegum. Að því loknu er mögulegt að draumur Kolbrúnar og eflaust margra annarra um sjálfbærar samgöngur rætist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×