Innlent

Brjálað veður á Flateyri í gærkvöld

Mikið vonskuveður reið yfir Flateyri í gærkvöld og fór vindhraði í allt að fjörtíu og fjóra metra á sekúndu. Vöruskemma í bænum hreinlega sprakk með þeim afleiðingum að braki rigndi yfir nærliggjandi hús og bíla. Tjónið af völdum veðurofsans er talið nema tugum milljóna.

Mikið tjón varð á Flateyri í gærkvöldi þegar skyndilega skall á þvílíkt ofsarok að mönnum var vart stætt á götum úti. Í það minnsta sjö hús og fjórir bílar skemmdust mikið og að sögn Ívars Kristjánssonar, formanns björgunarsveitarinnar á staðnum þá er ástandið í bænum mjög slæmt. Sum húsin eru svo skemmd að göt eru á veggjum og í einu þeirra kom gat á útvegg með þeim afleiðingum að salerni hússins rifnaði upp og fauk. Vöruskemma við Túngötu hreinlega sprakk og dreifðist spítnabrakið yfir nærliggjandi hús og bíla. Það eina sem eftir stendur af skemmunni eru tvö herbergi. Rafmagnslaust varð víða í bænum þegar rafmagnskassi rifnaði upp frá jörðu og lagðist á hliðina. Viðgerðir standa yfir og vonast er til að rafmagn verði komið á síðar í dag. Um tuttugu björgunarsveitarmenn eru að störfum í bænum og áætla þeir að hreinsunarstarfi ljúki á morgun. Íbúum á Flateyri varð að vonum mjög brugðið en engan sakaði í ofsanum. Tjón af völdum veðursins er talið nema tugum milljóna króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×