Innlent

Efasemdir um einkavæðingu Landsvirkjunar

Mynd/GVA

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segist hafa miklar efasemdir um að einkavæða beri Landsvirkjun. Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti því yfir við upphaf landsfundar flokksins að stefna bæri að því að einkavæða fyrirtækið. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra tók í sama streng í viðtali við fjölmiðla.

Verið var að ræða afsal ríkisins á vatnsréttindum og landi Búrfellsvirkjunar sem nýlega hefur verið úrskurðað þjóðlenda.

Nokkrir þingmenn lýstu andstöðu sinni við afsalið. Þjóðlendur ættu alltaf að vera í eigu ríkisins. Ekki síst í ljósi þess að tveir ráðherrar hafi lýst því yfir að einkavæða ætti Landsvirkjun.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra sagðist hins vegar hafa miklar efasemdir um einkavæðingu Landsvirkunar. Það gæti þó verið að einkaaðilar kæmu inn í reksturinn í lengri framtíð

Björgvin G. Sigurðsson Samfylkingu fagnaði þessari yfirlýsingu sem gengi í berhögg við yfirlýsingar iðnaðaráðherra, flokksystur ráðherrans. Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna, tók í sama streng og sagði iðnaðarráðherra hafa marglýst því yfir að einkavæða ætti Landsvirkjun. Forsætisráðherra sagði það vera rangt hjá Jóni, iðnaðarráðherra hafi aldrei lýst því yfir.

Jón Bjarnason sagði eignarhald Landsvirkjunar í sjálfu sér óskylt málinu sem verið væri að ræða, sem varðaði fyrst og fremst eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindum til framtíðar. Hann las úr viðtali við iðnaðarráðherra frá í febrúar í fyrra þar sem ráðherrann sagði að hugsanlega yrði Landsvirkjun breytt í hlutafélag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×