Innlent

Spasskí og Fischer hittast líklega um helgina

Spasský og Fischer við skákborðið í einvígi þeirra í Júgóslavíu árið 1992.
Spasský og Fischer við skákborðið í einvígi þeirra í Júgóslavíu árið 1992. MYND/Reuters

Boris Spasskí, fyrrverandi heimsmeistari í skák, teflir einvígi við Friðrik Ólafsson, fyrsta íslenska stórmeistarann, hér á landi á morgun. Líkur eru á að Spasskí og Bobby Fischer muni hittast, en ekki hefur verið ákveðið hvort þeir mætist við skákborðið.

Tilkynnt var fyrir nokkru að Spasskí væri væntanlegur hingað til lands vegna málþings sem haldið verður um Friðrik Ólafsson og feril hans á morgun en Spasskí mun þar flytja erindi. Í gær var svo sagt frá því að þeir félagar myndu tefla tveggja skáka einvígi við sama tækifæri. Friðrik varð fyrstur Íslendinga stórmeistari í skák og vann marga af helstu stórmennum skáklistarinnar á sínum tíma, þar á meðal Mikhael Tal og Bobbý nokkurn Fischer. Spasskí var honum hins vegar oft óþægur ljár í þúfu og að sögn Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, eins skipuleggjanda einvígisins, hefur heimsmeistarinn fyrrverandi betur í heildina þegar skoðaðar eru allar skákir þeirra tveggja í gegnum tíðina.

Eins og kunnugt er öttu Spasskí og Fischer kappi í því sem kallað hefur verið skákeinvígi aldarinnar hér á landi árið 1972. Aðspurð hvort ekki sé á dagskránni að þeir hittist og taki jafnvel eina stutta segir Guðfríður Lilja að þeir muni líklega hittast, en ekki sé víst að þeir mætist jafnframt við skákborðið. Það yrði þá utan kastljóss fjölmiðlanna.

Eivígi Friðriks og Spasskí fer fram í aðalstöðvum Landsbanka Íslands í Austurstræti strax á eftir málþinginu á morgun sem hefst klukkan hálf tvö, og eru allir velkomnir svo lengi sem húsrúm leyfir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×