Innlent

Góð loðnuveiði út af suðurstöndinni

Hafrannsóknarskipið Árni Friðriksson.
Hafrannsóknarskipið Árni Friðriksson. MYND/Vilhelm Gunnarsson

Góð loðnuveiði er nú út af suðurströndinni á móts við Ingólfshöfða og vilja sjómenn að þegar í stað verði aukið verulega við loðnukvótann, sem er sá lang minnsti í rúman áratug.

Að sögn sjómanna er stór og falleg loðna á svæðinu og telja þeir að yfirdrifið sé af henni. Í ljósi þessara frétta hefur hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson, sem leitað hefur loðnu austur af landinu, verið sent á vettvang til að kanna málið nánar.

Að sögn Þorsteins Sigurðssonar fiskifræðings, eru þó litlar líkur á að þetta sé ný ganga, heldur sé þetta loðnan sem Hafrannsóknastofnun mældi nýverið út af Austfjörðum og hafi nú gengið suður fyrir landið samkvæmt venju. Málið verði þó kannað nánar en ólíklegt sé að bætt verði við kvótann alveg á næstu dögum, að minnsta kosti.

Kvótinn er aðeins 150 þúsund tonn en ársaflinn á loðnu er iðulega vel á aðra milljón tonna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×