Innlent

Hátt gengi krónunnar að gera út af við ferðaþjónustuna

Hjörleifur ásamt ferðamönnum í tjaldi á hálendinu.
Hjörleifur ásamt ferðamönnum í tjaldi á hálendinu. MYND/E.Ól.

Hátt gengi krónunnar vegna stóriðjuframkvæmda mun ganga af mörgum smáum og meðalstórum ferðaþjónustufyrirtækjum dauðum þegar næsta sumar. Þetta segir Hjörleifur Finnsson, framkvæmdastjóri Íslenskra fjallaleiðsögumanna. Hann sagði of snemmt að spá nákvæmlega fyrir um næsta sumar út frá bókunum en að svartsýnustu spár í hans fyrirtæki kvæðu á um þriðjungs samdrátt.

Hjörleifur segir stóriðjuframkvæmdir skaða heildarímynd Íslands sem hreint og ómengað land en hátt í níutíu prósent ferðamanna sem koma hingað sækist aðallega eftir að sjá náttúru landsins. Þar fyrir utan er stóriðjan beint sjónlýti á þeim stöðum þar sem verksmiðjur standa, auk þess sem framkvæmdamenn sæki í ósnortna staði og gjörbreyti ásýnd þeirra. Hann kvartar yfir því að stjórnvöld taki ekki tillit til ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar þrátt fyrir að hún sé nú orðin þriðja stærsta útflutningsgrein Íslendinga. Ferðaþjónustan sé ekki nægilega sterkur þrýstihópur og hafi lítil sem engin áhrif á stefnumótun þrátt fyrir að vægi hennar fyrir efnahag þjóðarinnar sé töluvert meira heldur en til dæmis landbúnaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×