Innlent

300 nýir Sjálfstæðismenn á Akureyri frá áramótum

Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri.
Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri. MYND/Kristján J. Kristjánsson

Yfir 300 nýir félagar hafa skráð sig í Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri frá áramótum. Prófkjör fer fram um næstu helgi þar sem 20 bjóða sig fram í bæjarstjórn, sex konur og fjórtán karlar.

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri býður sig fram til að leiða listann áfram og herma heimildir að ekkert ógni endurkjöri hans. Um annað sætið er barist. Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi flokksins vill fá það sæti en að henni er sótt, meðal annars af fyrrverandi krötum. Þannig hefur Sigbjörn Gunnarsson fyrrum þingmaður Alþýðuflokksins og nú síðast sveitarstjóri í Mývatnssveit blandað sér í þann slag og Oktavía Jóhannesdóttir sem setið hefur í bæjarstjórn fyrir Samfylkingu hefur skipt um lit og vill efstu sæti.

Þá vill skólameistari Verkmenntaskólans, Hjalti Jón Sveinsson, æðstu metorð sem og Elín Margrét Hallgrímsdóttir símenntunarstjóri. Þá eru nokkrir ótaldir sem vilja efstu sæti.

Þeir einir geta kosið í prófkjörinu sem eru skráðir í sjálfstæðisfélög. Samkvæmt upplýsingum frá Sjálfstæðisflokknum á Akureyri hafa rúmlega 300 manns skráð sig í flokkinn frá áramótum. Þessu eiga menn ekki að venjast og eru uppi vangaveltur um smölun. 75 höfðu í morgun greitt atkvæði utankjörstaðar en prófkjörið fer fram á laugardag og liggja niðurstöður fyrir um kvöldið






Fleiri fréttir

Sjá meira


×