Innlent

Líklegt að ekkert verði úr áformum um jarðgöng

Vestmannaeyjar
Vestmannaeyjar MYND/Vísir

Jarðgöng milli lands og Vestmannaeyja verða líklega slegin úr pallborðinu. Ástæðan er sú að kostnaður er of mikill.

Nefnd á vegum Samgönguráðuneytisins fundaði í morgun um skýrslu jarðverkfræðinga þar sem kemur að kostnaður við jarðgangagerðina er mikill. Björn H. Harðarson, jarðverkfræðingur, segir að stærðargráða kostnaðar sé í kringum 70 milljarðar ef að um er að ræða ein göng en ef að tvenn göng verða samsíða vegna öryggis sjónarmiða þá verður upphæðin hærri.

Gunnar Gunnarsson, aðstoðar vegamálastjóri, segir að ekki hafi verið tekin afstaða til jarðgangagerðarinnar en fundað verður um niðurstöður skýrslunnar í næstu viku. Samkvæmt heimildum NFS er nokkurn veginn búið að slá gerð jarðganganna af vegna kostnaðarins. Björn, sem er einn höfunda skýrslunnar, segir aðstæður á svæðinu með erfiðasta móti.

Björn segir svæðið allt öðruvísi jarðfræðilega heldur en svæði sem að fyrri veggöng hafa verið í. Um þriðjungur af leiðinni er væntanlega í móbergi, sem er svona blanda af ýmsum ásýndum basalts sem hefur verið myndað í gosi undir sjó eða jökli. Afgangurinn af leiðinni er blanda af basalt hraunlögum og innskotum, kvikuinnskotum, og þarna eru neðansjávareldvörp á leiðinni. Þetta geri jarðgangagerð á svæðinu bæði erfiða og sérstaka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×